Innlent

Segir Guðna ekki hafa verið dónalegan við ungliða

Bryndís Gunnlaugsdóttir formaður Ungra framsóknarmanna.
Bryndís Gunnlaugsdóttir formaður Ungra framsóknarmanna.

Bryndís Gunnlaugsdóttir formaður Ungra framsóknarmanna segir ungliða flokksins hafa gagnrýnt flokksforystuna í heild sinni á miðstjórnarfundi flokksins um helgina. Hún segir Guðna ekki hafa verið dónalegan, umræðurnar hafi verið beinskeyttar og heiðarlegar.

„Við gagnrýndum forystuna í heild sinni og töluðum um að þjóðfélagið krefðist breytinga. Í því sambandi vísuðum við til Bandaríkjanna og að fólkið þar hefði sagt nei við gamla manninn með gömlu lausnirnar," segir Bryndís.

Í Fréttablaðinu í dag er sagt frá því að Guðni Ágústsson hafi brugðist illa við gagnrýninni og m.a. hefði hann beðist afsökunar á orðum sínum síðar á fundinum. Því er einnig haldið fram að viðbrögð hans við gagnrýninni hafi ráðið úrslitum um að hann hafi hætt formennsku í flokknum í gær.

„Guðni Ágústsson er það heiðarlegur maður að hann mun aldrei vera dónalegur í pontu og hann var það ekki. Við vorum harðorð og hann líka. Þetta voru beinskeyttar og góðar umræður sem áttu sér stað."

Bryndís segir að ungliðarnir hafi einungis verið að fylgja sinni sannfæringu um að yngja ætti upp í flokknum. „Þetta var góður fundur og það voru haldnar yfir 60 ræður. Stemmningin var almennt séð góð og við verðum að leggja evrópumálin til hliðar og byggja upp flokkinn. Í framhaldi af því getum við farið í að byggja upp þjóðfélagið."

Bryndís segir að ungliðarnir hafi talað fyrir því að ný forysta yrði skipuð á flokksþinginu í janúar.

„Það er slæmt að missa Guðna og hann hefur unnið ómetanlegt starf fyrir flokkinn. Hann taldi best að stíga til hliðar núna til þess að skapa starfsfrið og ég ber virðingu fyrir því."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×