Innlent

Segir Seðlabankann og fjármálaráðuneyti hafa verið á hryðjuverkalista

MYND/Hari

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði og fulltrúi í bankaráði Seðlabanka Íslands, fer hörðum orðum um Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, og aðgerðir breskra stjórnvalda gagnvart Íslandi í bankahruninu í grein í Wall Street Journal.

Segir hann að einn eða tveir íslenskir bankar hefðu staðið af sér andstreymið ef Brown hefði ekki beitt hryðjuverkalöggjöfinni til þess að taka yfir eignir Landsbankans og Kaupþings í Bretlandi. Þá segir Hannes að fjármálaráðuneytið og Seðlabankinn hafi í skamman tíma verið á lista breskra stjórnvalda yfir hryðjuverkasamtök við hlið talibana og al-Qaida.

Hannes fer yfir uppgang bankanna á síðustu árum í greininni og segir líklega skýringu á falli þeirra vera þá að þeir hafi hreinlega verið of stórir fyrir hagkerfið. Eignir þeirra hafi verið tíu sinnum meiri en landsframleiðslan og Seðlabankinn hafi því ekki geta verið lánveitandi til þrautarvara. Þá segir Hannes að Fjármálaeftirlitið hefði hugsanlega átt á krefjast þess mun fyrrr að fjármálafyrirtækin drægju úr starfsemi sinni erlendis.

Aðgerðir Breta gerðu stöðuna enn verri

Um aðgerðir Breta segir Hannes einnig að þær hafi gert stöðuna enn verri á Íslandi, bankakerfið hafi hrunið og utanríkisviðskipti farið úr skorðum. Þá segir hann Brown hafa beitt þessum harkalegu aðgerðum með þeim rökum að Íslendingar hafi ekki viljað standa við skuldbindingar sína gagnvart breskum innistæðueigendum. Ekkert styðji þessa fullyrðingu hans en þvert á móti hafi ríkisstjórnin ítrekað sagt að hún myndi standa við lögbundnar skuldbindingar sínar gagnvart innistæðueigendum á Evrópska efnhagssvæðinu.

Enn fremur bendir Hannes á að Brown hafi talað um fjármagnsflutninga frá Englandi til Íslands skömmu fyrir hrun bankanna. Ekkert liggi fyrir um hvort það sé satt en Hannes bendir á þegar átta milljarðar dollara voru fluttir frá Lehman Brothers í Englandi til Bandaríkjanna í september hafi hvorki fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna né seðlabankinn þar í landi farið á lista breskra stjórnvalda yfir hryðjuverkasamtök.

Segir Hannes að Gordon Brown hafi hreinlega ekki áttað sig á því að með því að fella íselnsku bankana myndi hann valda breskum innistæðueigendum mun meiri skaða en ef hann hefði haldið ró sinni og reynt að leysa máli. „Það er ekki að undra að Íslendingum finnist sem vinir þeirra í Evrópu hafi yfirgefið þá," segir Hannes.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×