Innlent

Fá ekki upplýsingar um GSM-síma vegna rannsóknar á ofsaakstri

MYND/GVA

Hæstiréttur hefur hafnað kröfu Sýslumannsins á Selfossi um að fá upplýsingar um þau GSM-tæki sem voru í notkun á Eyrarbakkavegi vestan Óseyrarbrautar á háltímakafla um miðjan dag þann 5. nóvember.

Lögregla fór fram á þessar upplýsingar vegna rannsóknar á ofsaakstri tveggja manna á veginum umrætt sinn. Þeir mældust á 210 og 192 kílómetra hraða. Lögregla náði skráningarmerki annars ökumannanna, þess sem hægar fór, en hinn slapp.

Vitni hafði samband við lögreglu og sagði bílnum hafa verið ekið til Þorlákshafnar og lögregla hafði upplýsingar um að ökumaðurinn hefði verið í símanum. Því vildi lögregla fá upplýsingar um þau GSM-tæki sem hefðu verið í notkun á veginum umrætt sinn. Var vísað til þess að um væri að ræða einhvern mesta hraða sem mældur hefur verið hjá lögreglunni í Árnessýslu og brot mannsins gætu varðað allt að tveggja ára fangelsi.+

Héraðsdómur Suðurlands varð við þeirri kröfu en Hæstiréttur sneri þeim dómi við. Vísaði Hæstiréttur til ákvæða stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs. Krafa lögreglunnar beindist ekki að tilteknum síma heldur öllum símum sem notaðir hefðu verið á Eyrarbakkavegi umrætt sinn og því væri ekki hægt að fallast á kröfuna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×