Fótbolti

Arnar með tilboð frá De Graafschap

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arnar Þór í leik með íslenska landsliðinu gegn því spænska.
Arnar Þór í leik með íslenska landsliðinu gegn því spænska. Nordic Photos / AFP
Arnar Þór Viðarsson er með tilboð frá hollenska úrvalsdeildarliðinu De Graafschap sem hann er að skoða.

Arnar lék með félaginu nú í vetur en hann er samningsbundinn FC Twente sem leikur í sömu deild. De Graafschap náði að halda sæti sínu í efstu deild eftir að hafa tekið þátt í umspilskeppni um laus sæti nú í vor.

„Það er enn óvissa um mína framtíð en þetta ætti að skýrast betur á næstu vikum," sagði Arnar. „Ég er með tilboð frá De Graafschap sem er til tveggja ára og er ég að skoða það í rólegheitum. Sumarfríið er nú rétt nýhafið og ýmsar þreifingar í gangi."

Arnar segist opinn fyrir öllu, jafnvel að snúa aftur til Twente.

„Ef það kemur ekkert spennandi upp kemur vel til greina að fara til Twente og berjast fyrir sæti mínu þar. Félagið er að fá nýjan þjálfara og eru reiðubúnir að taka á móti mér aftur."

Arnar lék lengi með Lokeren í Belgíu og segir að það séu ýmsar þreifingar þar. „Ég er enn þekktur í Belgíu og standa mér ákveðnir möguleikar til boða þar. Ég mun skoða þetta vel og vandlega á næstu vikum."

Hann segir að það sé þó enginn möguleiki að hann komi aftur til Íslands í bráð. „Nei, alls ekki. Það getur hins vegar að ég spili í 1-2 ár á Íslandi en ekki fyrr en eftir nokkur ár."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×