Íslenski boltinn

Átta rauð spjöld í leikjum dagsins

HK og ÍA skildu jöfn þar sem eitt víti og eitt rautt spjald litu dagsins ljós
HK og ÍA skildu jöfn þar sem eitt víti og eitt rautt spjald litu dagsins ljós

Það var sannarlega mikið fjör í leikjum dagsins í Landsbankadeild karla í knattspyrnu. Sex vítaspyrnur voru dæmdar í leikjunum fimm og átta menn fengu að líta rauð spjöld.

Mesta fjörið var í leik Fram og Grindavíkur á Laugardalsvellinum en þar fengu þrír leikmenn Grindavíkur reisupassann. Þetta voru þeir Scott Ramsay, Marinko Skaricic og Zoran Stamenic. Þá voru misnotaðar tvær vítaspyrnur í leiknum - ein á hvort lið - en það voru þeir Andri Steinn Birgisson hjá Grindavík og Paul McShane hjá Fram sem klikkuðu á spyrnum sínum.

Þar með var ekki öll sagan sögð á Laugardalsvellinum, því þeir Milan Stefán Jankovic, þjálfari Grindavíkur, og Ingvar Guðjónsson framkvæmdastjóri liðsins fengu einnig að líta rauða spjaldið að leik loknum.

Tvær vítaspyrnur voru dæmdar í leik Keflavíkur og KR í Keflavík og úr þeim skoruðu þeir Guðmundur Steinarsson og Björgólfur Takefusa.

Davíð Þór Viðarsson fékk að líta rauða spjaldið í leik FH og Fjölnis og sömu sögu var að segja af Stefáni Þórðarsyni hjá ÍA - en hann fékk reyndar rauða spjaldið annan leik sinn í röð. Vjekoslav Svadumovic skoraði jöfnunarmark ÍA úr vítaspyrnu í leiknum.

Atli Sveinn Þórarinsson fékk að líta rauða spjaldið í leik Íslandsmeistara Vals og Breiðabliks og þar misnotaði Blikinn Prince Rajcomar vítaspyrnu.

Í fréttinni í tenglinum hér fyrir neðan er stiklað á stóru yfir það helsta sem gerðist í leikjum dagsins, en nánari umfjöllun um leikina kemur hér á Vísi snemma í fyrramálið.


Tengdar fréttir

Keflavík lagði KR í frábærum leik

Toppliðin FH og Keflavík unnu leiki sína í dag þegar sjötta umferð Landsbankadeildarinnar kláraðist með fimm leikjum. Leikur Keflavíkur og KR var sannkölluð flugeldasýning og lauk með 4-2 sigri heimamanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×