Fótbolti

Ísland á enn góðan möguleika

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Margrét Lára Viðarsdóttir á fullum spretti í landsleiknum í Serbíu í gær.
Margrét Lára Viðarsdóttir á fullum spretti í landsleiknum í Serbíu í gær. Mynd/Aleksandar Djorovic

Eftir sigur íslenska knattspyrnulandsliðsins á Serbíu í gær er ljóst að liðið á enn góðan möguleika á að komast áfram í úrslitakeppni Evrópumeistaramótsins sem haldið verður í Finnlandi á næsta ári.

Ísland vann í gær 4-0 sigur á Serbum ytra en liðið hefur alls unnið fjóra af fyrstu fimm leikjum sínum í riðlinum.

Liðið vann til að mynda sigur á Frökkum á Laugardalsvelli, 1-0, en tapaði svo óvænt ytra fyrir Slóveníu, 2-1.

Í næsta mánuði á Ísland fyrir höndum tvo heimaleiki gegn Slóveníu og Grikklandi. Ef liðinu tekst að vinna sigur í þeim leikjum dugir Íslandi jafntefli í Frakklandi í lokaumferðinni til að tryggja sér beinan þátttökurétt í úrslitakeppninni í Finnlandi.

Að öðrum kosti á Ísland enn möguleika að komast til Finnlands í gegnum umspil. Liðin sem lenda í öðru sæti í riðlunum sex ásamt þeim fjórum liðum sem ná besta árangrinum í þriðja sæti sinna riðla komast í umspilsleikina.

Að lokinni riðlakeppninni verður dregið í fimm leiki þar sem leikið verður heima og að heiman en sigurvegarar leikjanna komast til Finnlands.

Sem stendur er Ísland með næstbesta árangur þeirra liða sem eru nú í öðru sæti sinna riðla og er því í vænlegri stöðu fyrir lokasprettinn í undankeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×