Innlent

Stálu umferðarljósum

Umferðarljósum var stolið í gærkvöldi af gatnamótum Sæbrautar og Holtavegar í Reykjavík. Ljósahausinn sem tekinn var ófrjálsri hendi er nokkru minni en hefðbundin ljós og var hann festur á miðjan staur, sem er vestanmegin gatnamóta fyrir umferð frá Holtavegi að því er segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. Ljósin voru sett upp nýlega og tengd ljósastýringu á mánudag.

„Þjófnaðurinn átti sér stað fyrir kl. 18:00 í gær og því ólíklegt annað en að einhver geti gefið upplýsingar um þessa óvenjulegu framkvæmdasemi. Ljósin voru skrúfuð af og strengurinn slitinn. Búið er að kæra þjófnaðinn til lögreglu og vona menn að ljósahausinn skili sér. Þeir sem hafa ábendingar eru beðnir um að láta lögreglu vita," segir ennfremur í tilkynningunni.

Dagbjartur Sigurbrandsson, verkefnastjóri hjá Framkvæmda- og eignasviði segir það hafa verið lán í óláni að umferðarljósin duttu ekki út þegar strengurinn var slitinn. Ljósin sem eru efst á staurnum virka og þau eru á sömu stillingu og ljósin sem tekin voru. Ökumenn bíla sem stöðva við gatnamótin eiga erfiðara með að fylgjast með ljósunum, sem er bagalegt því á þessum gatnamótum er umferðin þung.

Búið er að panta nýjan ljósahaus ef svo færi að sá gamli skili sér ekki. Vonast er til að nýr haus verði kominn til landsins og settur upp innan tveggja vikna. Kostnaður vegna þessa þjófnaðar fer hátt í 200 þúsund krónur. Vegfarendur eru beðnir um að sýna aðgát meðan þetta ástand varir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×