Fótbolti

Thuram leggur skóna á hilluna

NordcPhotos/GettyImages

Franski varnarmaðurinn Lilian Thuram tilkynnti í dag að hann væri hættur að leika knattspyrnu. Þessi magnaði 36 ára gamli bakvörður á að baki glæsilegan feril sem atvinnumaður.

Thuram spilaði 142 landsleiki fyrir Frakka á ferlinum og er leikjahæsti maður Frakka frá upphafi. Hann hafði ætlað að ganga í raðir PSG í heimalandi sínu í sumar en í læknisskoðun kom í ljós að hann var með óreglulegan hjartslátt.

"Ég tek líka tillit til fjölskyldunnar í þessu sambandi, en mig langaði að vera eins og Paolo Maldini hjá PSG," sagði Thuram á blaðamannafundi í dag.

Hann hóf feril sinn hjá Monaco árið 1990 en fór til Ítalíu árið 1996 þar sem hann lék með Parma og síðar Juventus. Árið 2006 gekk hann svo í raðir Barcelona þar sem hann lauk ferlinum.

Það var hinsvegar hjá franska landsliðinu sem Thuram vann sína stærstu sigra, því hann varð heimsmeistari með liðinu árið 1998 og svo Evrópumeistari tveimur árum síðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×