Enski boltinn

Ætla að bjóða hálfan milljarð punda í Liverpool

NordicPhotos/GettyImages

Fjárfestarnir frá Dubai International Capital í Dubai eru við það að bjóða 500 milljón punda tilboð í enska úrvalsdeildarfélagið Liverpool að sögn BBC.

Fjárfestarnir í DIC ætla að bjóða í hlut Bandaríkjamannanna George Gillett og Tom Hicks. Í fyrstu var talið að áhugi DIC beindist fyrst og fremst að 50% hlut Hicks í félaginu en nú er sagt að félagið hafi í hyggju að kaupa Liverpool á einu bretti.

DIC var ekki langt frá því að kaupa Liverpool í janúar á síðasta ári en hætti við þegar forráðamenn Liverpool vildu ekki setja tímamörk á samningaviðræðurnar og hófu viðræður við Bandaríkjamennina.

Bandaríkjamennirnir hafa gefið það út að þeir hafi ekki í hyggju að selja félagið, en stuðningsmenn Liverpool hafa áhyggjur af fyrirhuguðu 350 milljón punda láni sem þeir eru með á áætlunum sínum til að fjármagna byggingu nýja heimavallarins.

Þá er Hicks ekki vinsælasti maðurinn á Anfield eftir að hann greindi frá því að hann hefði rætt við Jurgen Klinsmann um að taka við Liverpool af Rafa Benitez.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×