Innlent

Kostnaður við sérsveit eykst um 60 prósent milli 2005 og 2007

MYND/GVA

Kostnaður vegna sérsveitar Ríkislögreglustjóra jókst um rúm 60 prósent á milli áranna 2005 og 2007 á meðan verkefnum sveitarinnar fjölgaði aðeins um 17 prósent.

Þetta kemur fram í svari Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur, þingkonu Vinstri - grænna. Í svarinu kemur fram að kostnaður við sveitina hafi verið um 256 milljónir króna fyrir þremur árum en hann var orðinn 415 milljónir í fyrra. Á sama tíma fjölgaði verkefnum sveitarinnar úr 4.400 í 5.200, en langflest verkefnin sneru að almennri löggæslu.

Í svari dómsmálaráðherra kemur enn fremur fram að 41 lögreglumaður sé í sérsveitinni og að meðalheildarlaun sérsveitarmanns á ári séu 7,4 milljónir króna samanborið við 6,5 milljóna króna meðalheildarlaun allra lögreglumanna.

Kolbrún spurði einnig hvernig tími sérsveitarmanna skiptist milli þjálfunar og eiginlegra lögreglustarfa. Í svari ráðherra kom fram að starf sérsveitarinnar skiptist í þrjá þætti, almenn lögreglustörf, sérverkefni og þjálfun. Um 75 prósent eða meira af vinnutíma væri vegna lögregluverkefna og um 25 prósent eða minna vegna þjálfunar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×