Enski boltinn

Guðjón: Leikmenn vita hvað bíður þeirra

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðjón er á leið í enska boltann á ný.
Guðjón er á leið í enska boltann á ný. Mynd/Daníel

Guðjón Þórðarson heldur til Englands í dag en hann mun formlega taka við starfi knattspyrnustjóra Crewe Alexandra á morgun.

Vísir náði tali af Guðjóni áður en hann hélt af landi brott en hann sagðist hlakka til að takast á við þetta verkefni. Crewe er í botnsæti ensku C-deildarinnar og er Guðjóni ætlað það verkefni að bjarga liðinu frá falli.

„Þetta leggst vel í mig. Ég hlakka til. Þetta verður samt gríðarlega erfitt en það er bara gaman af því," sagði Guðjón.

Crewe vann í gær sinn fyrsta útisigur á tímabilinu er liðið vann 4-1 sigur á Hartlepool. Engu að síður er liðið enn í neðsta sæti deildarinnar með sextán stig en fjögur neðstu liðin falla úr deildinni sem telur 24 lið.

„Þetta var góður útisigur og það var sautján ára strákur sem brillaði á hægri kantinum í leiknum. Leikmenn vita líka að kallinn er að koma og eru því að gera sig klára," sagði Guðjón í léttum dúr. Hann segist þekkja ágætlega til leikmanna liðsins.

„Ég þekki fyrirliðann vel og hann veit alveg hvað bíður þeirra leikmanna. Við þurfum að bretta ermarnar. Ég gæti sótt 2-3 leikmenn í janúar og það vill enginn missa sæti sitt í liðinu."

Guðjón á þó ekki von á því að kaupa leikmenn til félagsins heldur fá þá á láni til loka tímabilsins. „Ég mun ræða við þá knattspyrnustjóra sem ég þekki til og reyna frekar að fara þá leið en að kaupa menn."

Sem fyrr segir hefur Guðjón störf í fyrramálið. „Ég á fund með formanninum í fyrramálið og svo þjálfurunum. En ég býst við því að það fyrsta sem þarf að gera er að skoða leikfræðilega þáttinn hjá liðinu. Mér mun ekki gefast neitt svigrúm til að auka þrekæfingar eitthvað sérstaklega enda á liðið sjö leiki í janúar."

„Ég á þrjá leiki í minni fyrstu viku. Fyrst er leikur á laugardegi, svo á þriðjudegi og svo aftur á laugardegi. Fyrsti leikurinn er í bikarkeppninni gegn Millwall á útivelli af öllum stöðum. Stuðningsmenn liðsins taka yfirleitt á móti andstæðingnum með því að grýta rúturnar þeirra."

Guðjón man einnig vel eftir rimmum Stoke og Millwall þegar hann var stjóri fyrrnefnda liðsins. „Þeir eyðilögðu alltaf áhorfendasvæði gestanna þegar þeir komu. Brutu öll klósett og vaska og rifu einnig vatnspípurnar í veggjunum. Þetta eru klikkaðir menn."

Spurður um hvort hann eigi von á því að breytingar verði gerðar á starfsliði félagsins sagði Guðjón að það yrði skoðað eins og annað. „Þetta var allt með skipulegum hætti þegar að Dario Gradi var knattspyrnustjóri en hefur þetta verið á niðurleið síðustu átján mánuði. Það þarf að skoða hvaða hlekkir það voru sem gáfu eftir og ég mun vinna náið að þessu máli með stjórninni. Okkur er vissulega þröngur stakkur skorinn en við erum þó ekki í snörunni."

Gradi tók tímabundið við starfi knattspyrnustjóra aftur í haust eftir að Matt Holland var sagt upp störfum.

„Dario telur að það þurfi að styrkja leikmannahópinn ef liðið ætlar að bjarga sér frá falli. En ég tel að þarna séu leikmenn sem hafa ekki skilað sínu besta og eigi að geta gert betur. Það er þá mitt að fá þá til að vakna til lífsins."

„En þetta er auðvitað fyrst og fremst spurning um að bjarga liðinu. Liðið þarf líklega 33-34 stig til þess en það er nú með sextán stig. Þetta er því ekkert vonlaus barátta."

Guðjón gerði samning við Crewe sem gildir til loka tímabilsins en þann 1. janúar tekur við sex mánaða rúllandi samningur. Það þýðir að Guðjón mun alltaf eiga hálft ár eftir af samningi sínum við Crewe og hans launamál gerð upp samkvæmt því þegar kemur að því að hann lætur af störfum.

„Þetta er vissulega ekki algeng leið en þetta var eitthvað sem ég bauð þeim upp á. Ég hefði getað gert átján mánaða samning en þetta fyrirkomulag getur verið hagstætt fyrir báða aðila."

Guðjón tók við liði ÍA fyrir þarsíðasta tímabil og hætti á miðju tímabili nú í sumar. Hann kveður því íslenskan fótbolta í bili nú er hann fer aftur til Englands þar sem hann hefur áður þjálfað Stoke, Barnsley og Notts County.

„Ég vona að íslenskur fótbolti haldi áfram að vaxa og dafna. Það er brekka framundan í boltanum fyrir öll lið og árið framundan verður örugglega erfitt. En ég vona að menn horfi jákvætt á þetta. Ég held að í þessu árferði felist ákveðin tækifæri og menn þurfi nú að huga betur að grunnstarfsseminni - hlúa betur að ungu strákunum."

„Ef menn verða hófstilltir í sinni kröfugerð og átti sig á því með hvaða efnivið þeir eru með í höndunum verði það íslenskri knattspyrnu til framdráttar."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×