Enski boltinn

Verður West Ham aftur örlagavaldur Man Utd?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Andy Cole og Gary Pallister eru hér heldur niðurlútir í lok leiks United og West Ham vorið 1995.
Andy Cole og Gary Pallister eru hér heldur niðurlútir í lok leiks United og West Ham vorið 1995. Nordic Photos / Getty Images

Nú um helgina tekur Manchester United á móti West Ham í næstsíðustu umferð ensku úrvalsdeildarinnar. United þarf nauðsynlega að vinna leikinn til að halda í við Chelsea sem mætir Newcastle á mánudaginn.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem United mætir West Ham í mikilvægum leik undir lok tímabilsins en sagan sýnir að þótt West Ham hafi engra hagsmuna að gæta verði liðið allt annað en auðveld bráð.

West Ham hefur unnið þrjá síðustu leiki sína gegn United og Alan Curbishley er með 100 prósent árangur gegn liðinu síðan hann tók við West Ham.

West Ham hefur tvívegis komið í veg fyrir það að United yrði meistari og í fyrra bjargaði liðið sér frá falli með því að vinna United á Old Trafford.

22. apríl 1992
Alex Ferguson í viðtali árið 1992.Nordic Photos / Getty Images

West Ham var á botni deildarinnar og var þegar fallið úr ensku úrvalsdeildinni. Engu að síður vann West Ham sigur á United þökk sé marki Kenny Brown á 66. mínútu.

Þetta þýddi að United varð einu stigi á eftir Leeds sem náði að halda toppsæti deildarinnar allt til loka.

14. maí 1995

United misst af sínum þriðja meistaratitli í röð er liðið gerði 1-1 jafntefli við West Ham á Upton Park.

Michael Hughes kom West Ham yfir en Brian McClair jafnaði metin fyrir United í síðari hálfleik. Sigur hefði dugað liðinu til að verða meistari þar sem að Blackburn var að tapa á sama tíma fyrir Liverpool.

Andy Cole fór hins vegar illa með þrjú dauðafæri í lok leiksins og varð því Blackburn meistari það tímabilið en liðinu var stýrt af Kenny Dalglish.

13. maí 2007
Carlos Tevez tryggði West Ham sigur gegn United í fyrra.Nordic Photos / Getty Images
United var þegar orðið meistari þegar liðið tók á móti West Ham á Old Trafford. Carlos Tevez skoraði sigurmark West Ham í leiknum sem bjargaði sér frá falli í kjölfarið. Mark hans var metið á 40 milljónir punda fyrir West Ham en hann gekk í lok tímabilsins til liðs við Manchester United.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×