Enski boltinn

Newcastle og Manchester City áfram

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
James Milner skorar þriðja mark Newcastle í kvöld.
James Milner skorar þriðja mark Newcastle í kvöld. Nordic Photos / Getty Images

Úrvalsdeildarliðin Newcastle og Manchester City komust í kvöld áfram í fjórðu umferð ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu.

Svo virðist sem að endurkoma Kevin Keegan til Newcastle hafi haft góð áhrif á leikmenn liðsins sem vann 4-1 sigur á Stoke City á heimavelli, þrátt fyrir að hafa misst leikmann af velli í stöðunni 1-0.

Michael Owen skoraði fyrsta mark leiksins á 8. mínútu en á þeirri 29. fékk Emre að líta rauða spjaldið fyrir hrottalega tæklingu á John Eustace. Svo virðist sem að um hefndarbrot hafi verið að ræða því Eustace braut á Emre nokkrum mínútum fyrr.

En aðeins tveimur mínútum síðar bætti Cacapa við öðru marki. James Milner og Damien Duff bættu svo við tveimur mörkum í síðari hálfleik áður en Liam Lawrence minnkaði muninn á 89. mínútu.

Elano var hetja Manchester City í kvöld en hann skoraði eina mark leiksins gegn West Ham á 73. mínútu af stuttu færi.

Newcastle mætir Arsenal á útivelli í næstu umferð en Manchester City mætir Sheffield United á útivelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×