Enski boltinn

Mourinho útilokar ekki að snúa aftur til Chelsea

NordcPhotos/GettyImages

Jose Mourinho segir að samband hans við forráðamenn Chelsea sé mjög gott og útilokar ekki að snúa aftur á Stamford Bridge í framtíðinni.

Það er breska blaðið Sun sem hefur þetta eftir Portúgalanum litríka í dag. Hann var spurður að því hvort hann gæti hugsað sér að snúa aftur til Chelsea.

"Já, af hverju ekki? Auðvitað væri ég til í það. Ég var að tala við Roman Abramovich og Peter Kenyon í vikunni og sagðist óska þeim alls hins besta. Annars töluðum við aðallega um fjölskyldur okkar og vini. Samskipti okkar voru alltaf góð og það var sameiginleg ákvörðun að ég hætti á sínum tíma," sagði Mourinho og útilokaði alls ekki endurkomu.

"Mér finnst Chelsea enn vera partur af mér og ég verð með félagið í hjartanu alla tíð. Ég óska þeim alls hins besta enda hefur enginn heyrt mig hallmæla félaginu í fimm mánuði. Ég ætti erfitt með að fara til Englands og stýra öðru liði en Chelsea," sagði Mourinho.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×