Fótbolti

Eggert og félagar íhuga verkfallsaðgerðir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eggert Gunnþór Jónsson í leik með Hearts.
Eggert Gunnþór Jónsson í leik með Hearts. Nordic Photos / Getty Images

Eggert Gunnþór Jónsson og félagar í skoska úrvalsdeildarliðinu Hearts íhuga nú verkfallsaðgerðir vegna vangoldinna launa.

Leikmenn áttu að fá útborgað á föstudaginn síðastliðinn en hafa enn ekki fengið launaávísun sína. Leikmenn eru sagðir hafa rætt við skosku leikmannasamtökin vegna málsins.

Fram kemur í skoskum fjölmiðlum að ef laun verða ekki búin að skila sér í lok vikunnar, eins og þeim var lofað í gær, fari þeir í verkfall.

Starfsmenn félagsins áttu að fá greidd mánaðarlaun í dag en þeim hefur nú verið tilkynnt að svo verði ekki. Yfirlýsing frá Hearts staðhæfir að öll laun verði greidd út á föstudaginn.

Eigandi Hearts er litháíski viðskiptajöfurinn Vladimir Romanov. Banki hans, Ukio Bankas, ábyrgist allar skuldir félagsins sem eru nú 36,25 milljónir punda eða 6,4 milljarðar króna.

Staða bankans er ekki góð frekar en margra annarra banka víðsvegar um heiminn í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×