Innlent

Þingmenn Samfylkingarinnar vilja einnig kosningar á næsta ári

Ingibjörg Sólrún og nokkrir af þingmönnum Samfylkingarinnar.
Ingibjörg Sólrún og nokkrir af þingmönnum Samfylkingarinnar.

Að minnsta kosti fjórir þingmenn og tveir ráðherrar Samfylkingarinnar vilja að gengið verði til kosninga á næsta ári. Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, sagði í samtali við Vísi í dag að atburðir síðustu daga og vikna vera þeirra gerðar að þeir sem komi að uppbyggingarstarfinu verði að hafa til þess skýrt umboð.

Í framhaldinu sendi Vísir fyrirspurn á þingmenn Samfylkingarinnar þar spurt var um afstöðu þeirra varðandi málið og svöruðu þrír þingmenn í dag. Ellert B. Schram, Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Katrín Júlíusdóttir. Öll eru þau fylgjandi kosningum á næsta ári. Áður hafði Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, sagt í Silfri Egils að kjósa eigi á nýjan leik.

Þá hefur Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra líst því yfir að flýta eigi kosningum og vill hann að kosið verði til Alþingis næsta vor.

Kosningar eru óhjákvæmilegar og eðlilegar á fyrri hluta næsta árs eða í síðasta lagi í vor, að mati Ellerts.

,,Ég talaði fyrir kosningum á vormánuðum í morgunútvarpi Bylgjunnar á mánudaginn. Fagna öllum sem eru mér sammála um það," sagði Steinunn Valdís.

Katrín kvaðst vera þeirra skoðunar að kosningar eigi að fara fram í vor. Hún sagðist hafa líst þessari skoðun sinni yfir á aðalfundi Samfylkingarfélagsins í Garðabæ í gærkvöld. Fyrir því séu tvær ástæður. ,,Kjörnir fulltrúar þurfa endurnýjað umboð í ljósi gerbreyttra verkefna og breyta þarf stjórnarskránni vegna mögulegrar ESB - aðildar."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×