Enski boltinn

Tevez bjargaði stigi fyrir United

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Carlos Tevez fagnar jöfnunarmarki sínu.
Carlos Tevez fagnar jöfnunarmarki sínu. Nordic Photos / Getty Images

Manchester United tapaði dýrmætum stigum í toppbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar en getur þó þakkað fyrir eitt stig er liðið gerði jafntefli við Blackburn.

Roque Santa Cruz skoraði fyrir Blackburn í fyrri hálfleik en Carlos Tevez jafnaði metin fyrir United seint í síðari hálfleik.

Úrslitin þýða að United er nú með þriggja stiga forystu á Chelsea en liðin mætast um næstu helgi á Stamford Bridge.

Sir Alex Ferguson gerði fjórar breytingar á liði United frá liðinu sem vann Arsenal um síðustu helgi. Tomasz Kuszczak stóð í marki United í stað Edwin van der Sar og þá var Nemanja Vidic aftur í liði United eftir þriggja leikja fjarveru vegna meiðsla. Ryan Giggs og Tevez voru einnig í byrjunarliðinu.

Blackburn stillti upp sama liði og tapaði 3-1 fyrir Liverpool.

Bæði lið vildu fá vítaspyrnu í fyrri hálfleik og bæði lið fengu sín færi. Það var hins vegar aðeins Santa Cruz sem nýtti sitt færi og það eftir klaufagang í vörn United.

Morten Gamst Pedersen átti langt innkast og voru þeir Vidic og Rio Ferdinand í boltanum. Þeir misstu hins vegar af honum og fór boltinn af hæl Ferdinand og beint fyrir Santa Cruz sem þrumaði knettinum í netið.

Cristiano Ronaldo átti nokkrar góðar marktilraunir en alltaf sá Brad Friedel við honum. Í síðasti hálfleik átti Ronaldo gott skot að marki en Friedel náði að verja skotið í stöngina.

Eftir þetta varði Friedel nokkrum sinnum afar vel og hélt sínum mönnum inn í leiknum nánast einn síns liðs.

En hann náði þó ekki að verja frá Tevez undir lok leiksins. Nani tók hornspyrnu sem Paul Scholes framlengdi með skalla þar sem Tevez var mættur og skoraði af stuttu færi.

Friedel var þá nýbúinn að verja glæsilega í horn eftir marktilraun John O'Shea.

Þar við sat og við blasir æsispennandi toppbarátta í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×