Innlent

Fengu aðkenningu að reykeitrun

Eldur og reykur ógnaði lífi og heilsu bæði fólks og hesta í tveimur eldsvoðum í nótt en engan sakaði. Töluvert eignatjón varð í báðum tilvikum.

Þrennt var flutt á slysadeild Landsspítalans vegna aðkenningar að reykeitrun eftir að eldur kviknaði í íbúð í fjölbýlishúsi við Flatahraun í Hafnarfirði á fimmta tímanum í nótt. Fjölmennt slökkvillið var sent á vettvang en eldurinn logaði í einu herbergi og gekk slökkvistarf vel. Töluverðar reykskemmdir urðu þó í allri íbúðinni en ekki þurfti að rýma aðrar íbúðir. Heimilisfólkið mun vera á batavegi en eldsupptök eru ókunn.

Þá gjöreyðilagðist nýlega uppgert íbúðarhús í eldi í Þykkvabæ í nótt. Íbúarnir voru ekki heima en minnstu munaði að fimmtán hross yrðu reyk að bráð. Það voru nágrannar sem sáu reyk stíga frá húsinu upp úr miðnætti og leggjast í átt að nálægu hestuhúsi. Kölluðu þeir á slökkvilið og hleyptu svo hrossunum út. Þegar slökkviliðið kom á vettvang var gríðarmikill hiti í húsinu þannig að eldurinn hefur kraumað þar lengi. Slökkvistarf tók nokkrar klukkustundir þar sem eldur var alltaf að gjósa upp aftur en loks náðist að ráða niðurlögum hans. Eldsupptök eru líka ókunn þar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×