Innlent

Hvalur hf. fær innflutningsleyfi í Japan fyrir 60 tonnum

Hvalur hf. fær innflutningsleyfi fyrir þeim 60 tonnum af langreyðarkjöti sem legið hafa í tollgeymslu í Japan síðan í júní. Þetta hefur BBC-fréttastofan eftir háttsettum embættismanni í japanska viðskiptaráðuneytinu.

Fram kemur í frétt BBC að japönsk stjórnvöld hafi undanfarna mánuði kannað lagalegan grundvöll þess að veita innflutningsleyfi fyrir kjötið. Jafnframt hefur kjötið verið rannsakað með öryggis- og heilbrigðiskröfur í huga. BBC segir að Hvalur hf. vænti þess að öllum formsatriðum verði fullnægt á næstu vikum.

Eins og fram kemur hjá BBC er verslun með hvalkjöt af tegundum í útrýmingarhættu bönnuð með alþjóðalögum. Ísland, Japan og Noregur hafa hins vegar mótmælt þeim lögum og veitt sjálfum sér undanþágur frá þeim.

Deilur eru um hvort langreyðarstofninn í Norður-Atlantshafi sé í útrýmingarhættu eða ekki. Samkvæmt síðustu upplýsingum telur stofninn nú 30.000 dýr og fer vaxandi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×