Innlent

Spyr hvort lægsta tilboð í byggingu skóla sé endilega hagstæðast

Óskar Bergsson.
Óskar Bergsson.

Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, spyr hvort borgin hafi í raun tekið hagstæðasta tilboði í byggingu Sæmundarskóla í Norðlingaholti með því að semja við erlendan verktaka. Hann bauð aðeins tveimur prósentum betur en íslenskt fyrirtæki sem átti næstlægsta tilboð.

Í fyrirspurn á fundi borgarráðs í gær  vakti Óskar athygli á því að borgin hefði samið við litháískt fyrirtæki um byggingu skólans. Munur á milli litháíska fyrirtækisins og íslensks fyrirtækis var aðeins tvö prósent eða u.þ.b. 30 milljónir. „Þessi litli munur á milli tilboða vekur upp spurningar hvort lægsta tilboð í þessu tilviki sé í raun það hagstæðasta. Samskipti aðila af ólíku þjóðerni eru í eðli sínu flóknari og tímafrekari heldur en gerist og gengur og því þarf að leggja meiri vinnu og fjármuni í umsjón, eftirlit og túlkaþjónustu heldur en ef um íslenskt fyrirtæki væri að ræða," segir í fyrirspurninni.

Óskar segir þó að ekki megi misskilja fyrirspurnina á þann veg að íslenskir framkvæmdaaðilar sniðgangi skilmála EES-samningsins heldur sé aðeins tveggja prósenta munur á milli tilboða það lítill að lægsta tilboð þurfi ekki að vera það hagstæðasta. „Var það skoðað af innkauparáði og framkvæmda- og eignasviði hvort aukin umsýsla og áhætta við samninginn hefði aukinn kostnað í för með sér? Var lægsta tilboð í Sæmundarskóla í raun það hagstæðasta eða hefði verið hagstæðara fyrir borgina að taka næstlægsta tilboðinu vegna minni áhættu og skilvirkari samskipta?" spyr Óskar.

Þess má geta að fyrirtækið sem samið var við, Adakris, átti ásamt íslenska félagnu Toppverktökum lægsta tilboð í síðasta hluta tvöföldunar Reykjanesbrautar. Vegagerðin ákvað hins vegar að ganga ekki til samninga við fyrirtækin og sagði í tilkynningu fyrr á árinu að þau hefðu ekki uppfyllt kröfur Vegagerðarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×