Fótbolti

Skrímsli og óeirðir falli í skuggann af EM

Nú er aðeins mánuður í að EM í knattspyrnu hefjist í Austurríki og Sviss. Mótshaldarar áttu von á að verða í sviðsljósinu á mánuðunum fram að móti, en löndin tvö hafa þó komist í fréttir fyrir miður fallega hluti að undanförnu.

Fréttir af hryllilegum atburðum sem áttu sér stað í Amstetten í Austurríki, í 120 km fjarlægð frá höfuðborginni, hafa riðið yfir heimsbyggðina undanfarna daga.

Íþróttamálaráðherrann í Austurríki vonar að Amstetten-málið - þar sem maður er sakaður um að hafa haldið dóttur sinni nauðugri og eignast með henni sjö börn - muni ekki varpa skugga á Evrópumótið í sumar.

"Evrópumótið mun sýna hið raunverulega Austurríki. Vingjarnlegt og fágað land þar sem íþróttir og menning dafna," sagði ráðherrann í samtali við AP fréttastofuna.

Ekki hafa grannar Austurríkismanna í Sviss verið mikið heppnari með framvindu mála nú skömmu fyrir mót, því til óeirða kom á tveimur af mótsstöðunum í síðustu umferð í efstu deild.

45 manns voru fluttir á sjúkrahús eftir að kom til átaka á leikjum helgarinnar og flugust áhorfendur m.a. á við lögreglu.

Svisslendingar hafa ekki stórar áhyggjur af þessu fyrir EM í sumar og benda á að öryggisgæsla verði fimmfölduð á við það sem gengur og gerist þegar mótið hefst.

Fótboltabullur eru jafnan fyrirbæri sem vekur titring meðal skipuleggjenda fyrir stórmót, en Svisslendingar hafa trú á því að verðlag muni fæla hluta þeirra á brott.

"Það er ekki ódýrt að koma hingað og gista og kaupa sig inn á leikina, svo það ætti að koma í veg fyrir eitthvað af þessu," sagði talsmaður öryggismála í Basel.

Svartamarkaðsbraskið er jafnan mikið í kring um stórmót á borð við EM og dæmi eru um að miðar á leik Þjóðverja or Pólverja í Klagenfurt í Austurríki séu til sölu á hátt í 200,000 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×