Enski boltinn

Benitez gagnrýndi mig í körfubolta

NordcPhotos/GettyImages

Spænski landsliðsmaðurinn Alvaro Arbeloa segist ekki hafa átt sjö dagana sæla þegar hann hóf að leika með Liverpool. Hann segist hafa verið lengi að venjast ströngum starfsaðferðum knattspyrnustjórans Rafa Benitez.

"Ég vissi ekki hvar ég var fyrstu dagana og það var eins og allt færi úrskeiðis. Mér fannst þjálfarinn gagnrýna mig fyrir allt - meira að segja þegar ég var að spila körfubolta á æfingu," sagði Arbeloa, sem spilaði sinn fyrsta landsleik fyrir Spánverja gegn Ítölum á miðvikudagskvöldið.

Arbeloa var keyptur til Liverpool frá Deportivo á Spáni fyrir 2,5 milljónir punda fyrir rúmlega ári síðan, en hefur tekist að fóta sig eftir þessa skelfilegu byrjun.

"Mér fundust fyrstu tvær vikurnar hjá Liverpool ómanneskjulegar, en svo útskýrði stjórinn sem betur fer fyrir mér hvernig hlutirnir virka hérna. Sumir segja að Benitez sé fúllyndur en ég hef aðeins einu sinni séð hann þannig. Hann er samt alvörugefinn maður og það er eðlilegt því menn eru að reyna að ná árangri," sagði Arbeloa.

Hann segir Steven Gerrard og Jamie Carragher vera leiðtoga Liverpool - hvor á sinn hátt.

"Jamie er leiðtoginn í búningsherberginu, skipar mönnum fyrir og lætur þá heyra það. Hann heyrir líka allt og lætur okkur hina vita. Steven Gerrard er líka mikilvægur. Hann er eins og Zinedine Zidane - snillingur sem forðast sviðsljósið og lætur verkin tala á vellinum," sagði Arbeloa í samtali við Daily Mail.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×