Fótbolti

Yorke aftur kallaður í landsliðið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dwight Yorke, leikmaður Sunderland.
Dwight Yorke, leikmaður Sunderland. Nordic Photos / Getty Images

Dwight Yorke, leikmaður Sunderland, hefur aftur verið kallaður í landslið Trinidad og Tóbagó þrátt fyrir orðaskipti Jack Warner og Roy Keane á undanförnum vikum.

Warner er fyrrum formaður knattspyrnusambands Trinidad og Tóbagó og núverandi forseti CONCACAF, knattspyrnusambands norður- og mið Ameríku. Hann er einnig varaforseti FIFA.

Forsagan er sú að Yorke lék með landsliðið T&T gegn Gvatemala þann 6. september síðastliðinn en var svo kallaður aftur til Sunderland af Keane sem er knattspyrnustjóri liðsins. T&T átti leik gegn Bandaríkjunum nokkrum dögum síðar.

Í kjölfarið skrifaði Warner bréf til Keane þar sem hann sakaði hann um að bera ekki virðingu fyrir litlum knattspyrnuþjóðum.

Keane svaraði hressilega fyrir sig og sagði að Warner væri ekkert annað en trúður. „Ég sagði Jack hvað mér fannst um hann og sagði honum hvert hann mætti fara," sagði Keane.

Það sem er enn furðulegra er að Yorke tilkynnti í mars síðastliðnum að hann væri hættur að spila með landsliðinu svo hann gæti einbeitt sér að sínum ferli með Sunderland.

Keane heldur því fram í dag að Yorke sé enn hættur með landsliðinu, þó svo að hann hafi spilað með því í upphafi mánaðarins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×