Íslenski boltinn

Pálmi Rafn með þrennu í fyrsta sigri Vals

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Pálmi Rafn Pálmason átti stórleik í kvöld og skoraði öll þrjú mörk Valsmanna.
Pálmi Rafn Pálmason átti stórleik í kvöld og skoraði öll þrjú mörk Valsmanna. Mynd/Vilhelm

Íslandsmeistarar Vals unnu í kvöld sinn fyrsta sigur í Landsbankadeild karla en liðið lagði Grindavík með þremur mörkum frá Pálma Rafni Pálmasyni.

Grindvíkingar eru því enn án stiga eftir fyrstu tvær umferðirnar en liðið hefur mætt KR og Val á útivelli til þessa.

Fyrri hálfleikur var tíðindalítill ef frá er talið fyrra mark Vals en leikurinn var öllu fjörlegri í síðari hálfleik. Grindvíkingar mættu sprækir til leiks í síðari hálfleik en eftir annað mark Pálma Rafns voru úrslitin ráðin. Hann fullkomnaði svo þrennuna í blálok leiksins.

Fyrri hálfleikur var afar rólegur lengst framan af ef frá er talinn þrumufleygur Bjarna Ólafs Eiríkssonar strax á þriðju mínútu leiksins. Magnús Þormar, markvörður Grindavíkur mátti hafa sig allan við að verja skotið.

Eftir það róaðist leikurinn mjög þó svo að Valsarar hafi verið meira með boltann. Grindvíkingar vörðust aftarlega og freistuðu þess að sækja hratt á vörn heimamanna.

En á 42. mínútu skoruðu Valsmenn fyrsta mark leiksins. Valsmenn sóttu upp vinstri kantinn þar sem boltinn barst á Bjarna Ólaf við endalínuna. Hann lagði boltann út á Pálma Rafn sem stóð í miðjum teignum og skoraði með laglegu skoti. Magnús Þormar var í boltanum en náði ekki að verja.

Seinni hálfleikur byrjaði talsvert betur en sá fyrri var lengst af en gestirnir frá Grindavík voru nokkuð aðgangsharðir við mark Valsmanna.

En aftur náðu Valsmenn að skora og aftur var Pálmi Rafn þar að verki eftir laglegan samleik við Helga Siguðrsson. Pálmi fékk boltann á vítateigslínunni og skoraði með laglegu skoti í neðra hægra markhornið.

Eftir þetta var nokkuð ljóst í hvað stefndi en Pálmi Rafn náði að fullkomna þrennuna undir lok leiksins er hann skoraði þriðja mark Vals. Baldur Þórólfsson var nýkominn inn á sem varamaður og átti háa fyrirgjöf inn á teig Vals þar sem Magnús Þormar ætlaði að klófesta knöttinn. Pálmi Rafn varð hins vegar fyrri til og skallaði knöttinn í autt markið.

Sætur og öruggur 3-0 sigur Valsmanna því staðreynd.

Þá má smella á hlekkinn hér að neðan til að sjá lýsingu Boltavaktar Vísis og Fréttablaðsins frá leik Vals og Grindavíkur.

Landsbankadeild karla, 2. umferð: Valur - Grindavík


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×