Íslenski boltinn

Pálmi Rafn: Líður aðeins betur en eftir síðasta leik

Valsmenn fögnuðu þremur mörkum í kvöld.
Valsmenn fögnuðu þremur mörkum í kvöld. Mynd/Hörður

„Jú, ég get ekki neitað því að mér líður aðeins betur nú en eftir síðasta leik," sagði markaskorarinn Pálmi Rafn Pálmason sem skoraði öll þrjú mörk Vals gegn Grindavík í kvöld.

Valur tapaði stórt í fyrstu umferð Landsbankadeildarinnar, 5-3 fyrir Keflavík, og svaraði fyrir sig í kvöld með góðum 3-0 sigri á Grindavík.

„Okkur gekk vel að gíra okkur upp í þennan leik," sagði Pálmi Rafn í samtali við Vísi eftir leik. „Við vorum staðráðnir í að sýna okkar rétta andlit. Leikurinn í Keflavík var alls ekki nógu góður af okkar hálfu og því ekkert annað að gera en að svara því í kvöld. Við vorum ekkert bangnir fyrir þennan leik enda ákváðum við að dvelja ekkert lengur við leikinn í Keflavík."

Bæði lið voru lengi að þreifa fyrir sér í fyrri hálfleik og segir Pálmi Rafn að það hafi verið eðlilegt. „Þetta var barátta tveggja góðra liða hér í kvöld. Grindavík er með mjög öflugt lið og má alls ekki vanmeta þá."

Hann skoraði sína fyrstu þrennu í efstu deild í kvöld en hafði áður afrekað það í 1. deildinni. „Það er auðvitað mjög gaman að ná þrennunni líka í efstu deild og ætli landsliðið sé ekki bara næst," sagði hann í léttum dúr. „En mér líður mjög vel með Valsliðinu og þegar við látum boltann ganga vel eins og við gerðum á köflum í kvöld mun okkur vegna vel."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×