Íslenski boltinn

Orri Freyr: Eins og hræddir kjúklingar

Orri Freyr í leik KR og Grindavíkur í 1. umferð Landsbankadeildarinnar.
Orri Freyr í leik KR og Grindavíkur í 1. umferð Landsbankadeildarinnar. Mynd/Vilhelm

Fyrirliði Grindavíkur, Orri Freyr Hjaltalín, sagði að sínir menn hafi einfaldlega verið lélegir í kvöld, allir sem einn.

Valur vann í kvöld 3-0 sigur á Grindavík sem hefur nú tapað fyrstu tveimur leikjum sínum í Landsbankadeild karla í vor og fengið á sig þrjú mörk í báðum leikjum.

„Frammistaða okkar í kvöld var töluvert lakari en í fyrsta leiknum gegn KR. Við vorum lélegir og lítið hægt að afsaka okkar frammistöðu. Við vorum eins og hræddir kjúklingar, þorðum ekki að halda boltanum og spila okkar leik."

„Fyrri hálfleikur var hundleiðinlegur og lítið að gerast hjá báðum liðum. En svo ná þeir að brjóta ísinn og brutu okkur niður eftir það."

Grindavík hefur mætt KR og Val á útivelli í fyrstu tveimur umferðunum. „Það er vissulega ekkert auðvelt að byrja mótið á þessur tveimur leikjum en við verðum að byrja einhversstaðar og þá er alveg eins gott að byrja á þessum leikjum."

Næsti mótherji Grindavíkur verður Fjölnir á heimavelli og segir Orri að ekkert annað en sigur komi til greina í þeim leik. „Menn verða þó að koma talsvert betur stemmdir til leiks en þeir gerðu í kvöld. En okkur líður best á heimavelli og ætlum okkur að vera sterkir þar eins og á undanförnum árum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×