Innlent

Tveir Litháar ákærðir fyrir nauðgun

Andri Ólafsson skrifar

Ríkissaksóknari hefur gefið út ákærur á hendur tveimur litháískum karlmönnum sem gefið er að sök að hafa nauðgað konu á hrottafenginn hátt í húsasundi í miðbæ Reykjavíkur.

Hin meinta nauðgun átti sér stað í byrjun nóvember. Mennirnir voru handteknir skömmu síðar og úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Það rann út í gær en Héraðsdómur úrskurðaði mennina í áframhaldandi gæsluvarðhald sem rennur ekki út fyrr en dómur er fallinn í málinu.

Mennirnir kærðu þann úrskurð en hann var svo staðfestur í Hæstarétti í dag.

Konan sem kærði lýsir því svo að hún hafi verið stödd á skemmtistað í bænum og þar hafi tveir menn komið til hennar og hafi annar þeirra farið að ræða við hana á ensku. Eftir að skemmtistaðnum hafi verið lokað hafi mennirnir gengið með henni upp Laugaveginn. Þau hafi gengið inn í húsasund við gatnamót Laugarvegs og Vitastígs en þar hafi mennirnir ráðist á hana með ofbeldi og nauðgað henni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×