Innlent

Áramótaveður Stormsins sleppur til

Sigurður Þ Ragnarsson
Sigurður Þ Ragnarsson

"Mér sýnist að þetta sleppi til" segir Sigurður Þ. Ragnarsson veðurfræðingur hjá 365 aðspurður um skoteldaveðrið í kvöld.

"Það hefur jákvæð þróun átt sér stað í nótt og þá í þá veru að vindur verður heldur hægari um miðnætti en horfur voru á í gær. Mér sýnist því að það verði þolanlegt skoteldaveður um miðnætti víðast hvar og áberandi best á Norðausturlandi" segir Sigurður.

Hann segir að svæði sem eru krítísk í spánum séu annesin á vestanverðu landinu, þ.e. Reykjanesið, Snæfellsnesið, einkum norðanvert og síðan vestast á Vestfjörðum.

"Þar eru horfur á 15-20 m/s en í Reykjavík sýnist mér að vindhraðinn um miðnætti verði um 13 til 14 m/s sem er alveg viðunandi miðað við það sem á undan er gengið". Rigning eða slydda verður á sunnan- og vestanverðu landinu og þá sýnu mest á Suðausturlandi segir Sigurður og bætir við að Norðausturlandið verði þurrt og að þar verði vindhraðinn 8-13 m/s.

Frostlaust verður láglendi um allt land í kvöld og verður hitinn víðast þetta 2-7 stig.

"Ég vil síðan fá að misnota aðstöðu mína og senda landsmönnum öllum árs og friðar kveðjur með þökk fyrir samfylgd á árinu sem senn er liðið" segir Sigurður að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×