Erlent

Lögreglan í Moskvu handtók 170 mótmælendur

Garrí Kasparov ræðir við mótmælendur í morgun áður en hann var handtekinn.
Garrí Kasparov ræðir við mótmælendur í morgun áður en hann var handtekinn. MYND/AFP

Lögregla í Moskvu segist hafa handtekið um 170 manns sem ætluðu að taka þátt í óheimilum mótmælum í borginni gegn stjórnvöldum. Eins og greint var frá fyrr í morgun var Garrí Kasparov, fyrrverandi heimsmeistari í skák og einn af leiðtogum stjórnarandstöðunnar í Rússlandi, í hópi hinna handteknu.

Reuters-fréttastofan hefur eftir talsmanni lögreglunnar í Moskvu að lögreglunni hefði tekist að koma í veg fyrir mótmælin og hefðu mennirnir 170 verið hvað ákafastir. Þá sagði hann að lögregla ætti von á að hugsanlega kæmi til mótmæla á öðrum stöðum í borginni síðar í dag en hún myndi einnig stöðva þau.

Greint er frá því á vef breska ríkisútvarpsins að um níu þúsund lögreglumenn hafi verið kallaðir til Moskvu frá öðrum hlutum Rússlands til að koma í veg fyrir mótmælin.

Engar frekari fregnir hafa borist af Kasparov en hann hefur verið í hópi hörðustu andstæðinga Pútíns og sakað hann um ólýðræðislega stjórnarhætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×