Innlent

Erum bara að slökkva elda

Egilsstaðir.
Egilsstaðir. MYND/365

Alls vantar 18 starfsmenn á sjúkrahús Egilsstaða til að fullmanna allar vaktir að sögn fulltrúa framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Ákveðið hefur verið að loka á allar innlagnir á sjúkrahúsið frá og með 11. maí næstkomandi. Sjúklingar verða þess í stað fluttir til Akureyrar, Reykjavíkur eða Norðfjarðar.

„Við erum bara að slökkva elda," sagði Þórhallur Harðarson, fulltrúi framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunar Austurlands, í samtali við Vísi. „Við erum búnir að reyna gríðarlega mikið að fá starfsfólk en án árangurs. Við höfum jafnvel boðist til að borga flug fyrir fólk fram og til baka."

Framkvæmdaráð Heilbrigðisstofnunar Austurlands á Egilsstöðum ákvað í dag að loka fyrir allar innlagnir á sjúkrahúsið á Egilsstöðum frá og með föstudeginum 11. maí næstkomandi. Engin afleysing hefur fengist fyrir sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga í sumar og því er gripið til þessa úrræðis. Þetta er ekki fyrsta skiptið sem gripið er til þessa ráðs því í fyrrasumar var lokað fyrir innlagnir á spítalann í sex vikur.

Að sögn Þórhalls er ástandið afar alvarlegt enda ljóst að flytja verður sjúklinga annað eftir að þeir hafa hlotið aðhlynningu á spítalanum. Til Akureyrar, Reykjavíkur eða fjórðungssjúkrahússins á Norðfirði. „Við getum ekki haldið úti heilum vöktum með ófaglært starfsfólk."

Þórhallur segir spítalann hafa reynt að kaupa frí af starfsfólki til að halda úti vöktum. Mikið álag hafi hins vegar verið á starfsfólki og það þurfi hvíld. „Það er mikil yfirvinna á því fólki sem nú er að vinna og þetta fólk þarf að hvílast."

Frá árinu 2004 hefur íbúum í Fljótsdalshéraði fjölgað um 1.200 eða úr 3.364 manns í 4.737 samkvæmt tölum Hagstofunnar. Frá árinu 2002 hefur fjöldi lækna í héraðinu hins vegar staðið í stað og eru þeir nú fjórir talsins. Alls vinna 92 starfsmenn á sjúkrahúsinu á Egilsstöðum.

Framkvæmdaráð Heilbrigðisstofnunar Austurlands mun endurskoða ákvörðun sína ef forsendur breytast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×