Innlent

Verðmætasti hlutur einkaaðila í orkufyrirtæki

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
Orkuver Hitaveitu Suðurnesja í Svartsengi
Orkuver Hitaveitu Suðurnesja í Svartsengi

 

Geysir Green Energy bauð hæst í eignarhlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja. Tilboðin voru opnuð á Hótel Sögu í dag. Geysir bauð rúmlega sjö og hálfan milljarð króna í hlutinn. Það er næstum tvöfalt hærra verð en næsthæsta tilboðið hljóðaði upp á.

„Þetta er án efa verðmætasti hlutur einkaaðila í orkufyrirtæki hér á landi," segir Árni Magnússon forstöðumaður fjárfestinga hjá Glitni. Geysir Green energy er meðal annars í eigu Glitnis sem hefur tekið þátt í fjármögnun verkefna á sviði orkumála.

Fjögur tilboð bárust og voru opnuð fyrir stundu á Hótel Sögu. Geysir bauð 7.616 milljónir króna, í 15% hlut ríkisins.

Suðurnesjamenn ehf. áttu næst hæsta boðið upp á 4.705 milljónir króna. Að því standa meðal annarra Vísir í Grindavík, Kaupfélag Suðurnesja og Sparisjóðurinn í Keflavík.

Þriðja hæsta boðið var frá Eignarhaldsfélaginu HS, sem að standa Landsbankinn, Hörður Jónsson og Örn Erlingsson, 4,655 milljónir króna og fjórða hæsta, 2.760 milljónir króna, frá Saxbygg.

Gert er ráð fyrir að skrifað verði undir kaupsamning við Geysi í maí ef félagið sjálft og núverandi hluthafar nýta ekki forkaupsrétt. Miðað tilboð Geysis er ólíklegt að það verði.

Frestur til að lýsa áhuga á kaupum á eignarhlutnum rann út annan apríl síðastliðinn. Tíu aðilar uppfylltu skilyrði fyrir að bjóða í hlut ríkisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×