Innlent

Lokuðu fyrirvaralaust salernisaðstöðu bílstjóranna

MYND/VG

Bílstjórar hjá leigubílastöðinni BSH í Hafnarfirði segjast hafa verið beittir órétti eftir að eigendur stöðvarinnar brugðu á það ráð að loka fyrirvaralaust hvíldar- og salernisaðstöðu bílstjóranna síðastliðinn laugardag. Formaður bílstjórafélagsins Fylkir segir að með þessu séu eigendurnir að ná sér niðri á bílstjórunum en þeir hafa allir sagt upp hjá stöðinni. Einn eigandi leigubílastöðvarinnar BSH segir málið byggt á misskilningi.

„Þegar við komum eftir hádegi á laugardaginn var búið að loka allri aðstöðu," sagði Ingólfur Möller Jónsson, leigubílstjóri og formaður Bílstjórafélagsins Fylkir, í samtali við Vísi. „Það stóð bara lokað vegna breytinga og hefur verið lokað síðan þá."

Nánast allir leigubílstjórar hjá BSH sögðu upp störfum hjá fyrirtækinu í byrjun marsmánaðar eftir að nýir eigendur tóku við rekstri stöðvarinnar. Voru bílstjórarnir ekki sáttir við eigendaskiptin og ákváðu þess í stað að stofna eigin leigubílastöð, Aðalstöðin-BSH. Sú stöð tekur til starfa þegar uppsagnarfrestur bílstjóranna rennur út á morgun.

Ingólfur segir bílstjórana eiga rétt á aðstöðunni þangað til uppsagnarfrestur þeirra rennur út. Þeir séu búnir að greiða húsaleigu enda sé hún hluti af gjöldum bílstjóranna til stöðvarinnar. Hann segir þó ólíklegt að þeir muni kæra málið. „Okkur finnst þetta fyrst og fremst hlægilegt. Við höfum ekki hugsað okkur að taka þátt í þessu stríði. Þetta er aðallega eigendum BSH til vansa."

Einar Ágústsson, einn eigandi BSH leigubíla, sagði í samtali við Vísi málið ekki tengjast uppsögnum leigubílstjóra. Unnið sé að uppsetningu öryggiskerfis og því hafi þurft að loka aðstöðunni tímabundið. „Við erum að setja upp öryggiskerfi til að tryggja meðal annars öryggi starfsfólks. Þetta hefur ekkert með þessar uppsagnir að gera."

Að sögn Einars verður aðstaðan opnuð aftur á miðvikudaginn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×