Innlent

Vill að ríkið hætti við sölu á hlut sínum í Hitaveitu Suðurnesja

MYND/GVA

Málefni Hitaveitu Suðurnesja hefur ekki fengið lýðræðislega meðferð hvorki af hálfu Alþingis eða viðkomandi sveitarfélaga að mati Jóns Bjarnasonar, þingmanns Vinstri grænna. Hann segir það aldrei hafa staðið til að Hitaveita Suðurnesja yrði einkavædd þegar málið kom til kasta Alþingis á sínum tíma og krefst þess að ríkið hætti við sölu hlutar síns í hitaveitunni.

„Ég tel að eigi að stöðva þetta ferli núna," sagði Jón Bjarnason, þingmaður Vinstri grænna, í samtali við Vísi. „Stjórnvöld eiga að fresta sölunni þangaði til málið hefur fengið rétta meðferð á Alþingi. Ég er mjög ósáttur við feril málsins. "

Samkvæmt samkomulagi bæjaryfirvalda í Hafnarfirði, Reykjanesbæ og Grindavík munu sveitarfélagin ekki nýta forkaupsrétt sinn á hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja. Hlutur Geysis Green Energy í hitaveitunni verður um 32 prósent.

Að mati Jóns stóð aldrei til að hitaveitan yrði einkavædd þegar málið var rætt á Alþingi. Hann segir hins vegar ljóst að með þessu samkomulagi sé einkavæðingaferill hafinn. „Það eru svik við lýðræðið í landinu að troða einkavæðingunnni í gegn með þessum hætti. Kjósendur í þessum sveitarfélögum hefðu aldrei samþykkt þetta fyrir kosningar. Þar auki varðar málið grunnþætti almannaþjónustu í samfélaginu og því ekki einkamál þessara einstöku sveitarfélaga."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×