Innlent

Þarf að læra að skrifa aftur eftir að hafa misst fingur

Kolbrún Líf, átta ára stúlka sem missti fingur eftir slys í Laugardalslauginni skömmu fyrir jól, fékk að fara heim tveimur dögum fyrir aðfangadag og halda jólin hátíðleg þar. Móðir stúlkunnar segir að slysið komi til með að hafa mikil áhrif á líf hennar en hún sér ekki fram á draumurinn um að stunda fimleika rætist á næstunni.

Kolbrún hafði verið að leik með vinum sínum í sundlauginni skömmu áður en að slysið varð. Þegar hún fór upp úr sundlauginni festi hún fingur sinn í vír og datt en við það skarst fingurinn af henni.

Dínana Fjölnisdóttir, móðir Kolbrúnar, var ekki með henni í sundi. Hún fór beint upp á spítala þegar hún fékk fréttirnar og var komin þangað á undan sjúkrabílnum. Kolbrún gekkst undir margra klukkustunda aðgerð þar sem reynt var að festa fingurinn á en fljótlega kom í ljós að það hafði ekki tekist. Díana segir ljóst að slysið komi til með að hafa mikil áhrif á líf hennar. Hún þurfi að læra að skrifa upp á nýtt og slysið hafi einnig áhrif á áætlanir Kolbrúnar um að fara að æfa fimleika.

Díana telur líklegt að hún höfði skaðabótamál á hendur Reykjavíkurborg vegna slysins en hún er afar ósátt við hvernig gengið var frá vírnum sem Kolbrún festi sig í. Kolbrún segist muna eftir slysinu. Hún treystir sér þó ekki til að ræða það en segist líða vel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×