Innlent

Hálka víða um land og vonskuveður á Vestfjörðum

Vonskuveður er víða á Vestfjörðum og varar Vegagerðin við stórhríð á fjallvegum. Verið að moka Kleifaheiði og hálsana í Barðastrandarsýslu. Á norðanverðum fjörðunum er ófærð og stórhríð á Gemlufallsheiði, Eyrarfjalli og Steingrímsfjarðarheiði og beðið með mokstur.

Á Norðurlandi er víða ofankoma og sumstaðar einnig skafrenningur. Á Öxnadalsheiði hefst varla undan með mokstur og er þar þæfingsfærð þrátt fyrir viðstöðulausan mokstur.

Á Austur- og Suðausturlandi er víðast hvar hált og verið er að opna veginn um Öxi.

Á Suður- og Vesturlandi eru hálka eða snjóþekja víðast hvar. Hálkublettir eru á Reykjanesbraut og á Hellisheiði. Mosfellsheiðin er þungfær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×