Innlent

Snjómokstursbílar á ferðinni í höfuðborginni

Snjómokstursbílar á vegum framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar hafa verið á götum úti í dag þar sem nokkuð hefur snjóað í höfuðborginni og hvítt yfir að litast. Engin óhöpp hafa orðið í snjókomunni að sögn lögreglu en lítil umferð er á götum borgarinnar og má að líkindum rekja það til jólanna.

Að sögn Sigurðar Þ. Ragnarssonar, veðufræðings á fréttastofu Stöðvar 2, má búast við éljum í dag í velflestum landshlutum og að hitinn verði í kringum frostmark. Hann á von á að það hvessi vestast á Vestfjörðum þegar líður á kvöldið og vindurinn fari í 15-18 metra á sekúndu með snjókomu og tilheyrandi skafrenningi.

„Svo er mjög stutt í mjög myndarlegan vindstreng sem gengur væntanlega inn á landið í nótt þannig að það er rétt að hafa það í huga, veðurspáin er einnq síst á Vestfjörðum, annars staðar erum við með þokkalegt veður," segir Sigurður.

Á morgun býst Sigurður ekki við úrkomu annars staðar en á norðvesturhluta landsins. „Spáin er nú ekki góð fyrir Vestfirði allra vestast. Þar er ég að gera ráð fyrir hvassviðri eða jafnvel stormi og þar má búast við skafrenningi því ofankoman er töluverð í þessu," segir Sigurður. Þá verður hvasst á Snæfellsnesi en annars staðar verður rólegheitaveður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×