Innlent

Sprengdi hjólbarða á fimm lögreglubílum

Lögreglan á Suðurnesjum handtók í nótt karlmann sem grunaður er um að hafa sprengt hjólbarða á fimm lögreglubílum.

Maðurinn var stöðvaður í gærkvöldi vegna gruns um ölvunarakstur en fékk að fara heim að lokinni skýrslutöku. Skömmu síðar veittu lögreglumenn því athygli að búið var sprengja átta hjólbarða á fimm lögreglubílum fyrir utan lögreglustöðina.

Nýfallinn snjór var á jörðu og gátu lögreglumenn rakið spor frá bílunum að heimili mannsins. Var hann handtekinn og færður í fangageymslu. Að sögn lögreglunnar virðist maðurinn hafa reynt að hylma spor sín í snjónum rétt áður en hann kom að heimili sínu með því fara úr skónum.

Lögreglan lítur á atvikið alvarlegum augum enda var stór hluti lögreglubíla umdæmisins í óökufæru ástandi og mikil hætta hefði getað skapast ef upp hefði komið neyðartilfelli.

Maðurinn verður yfirheyrður seinna í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×