Innlent

Annasamur tími fyrir presta

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hjörtur Magni Jóhannsson, prestur í Fríkirkjunni.
Hjörtur Magni Jóhannsson, prestur í Fríkirkjunni.

Hjörtur Magni Jóhannsson, prestur í Fríkirkjunni í Reykjavík, verður með þrjár helgistundir næsta sólarhringinn. „Það verður aftansöngur klukkan sex í Fríkirkjunni, þar sem Anna Sigríður Helgadóttir og Carl Möller munu sjá um tónlistarflutning og fermingarbörn taka þátt með einskonar ljósauppstillingu," segir Hjörtur Magni.

„Síðan verður samvera í kirkjunni klukkan hálf tólf í umsjón Ásu Bjarkar Ólafsdóttur þar sem Páll Óskar Hjálmtýsson og Monika Abendroth munu flytja tónlist. Síðan verður hátíðarguðþjónusta á morgun," segir Hjörtur Magni. Hann bendir á að í fyrra hafi samanlagt um 1000 manns mætt á þessar helgistundir og væntir þess að svipaður fjöldi verði nú í ár.

Hjörtur Magni segir að aðventan og jólahátíðin sé annasamur tími fyrir presta. „En ég hef nú verið að gera þetta síðastliðin 20 ár þannig að ég þekki ekki annað," segir Hjörtur Magni.

„Það er alltaf mikil spenna og væntingar sem tengjast jólunum. Í sumum tilfellum tekst ekki að uppfylla væntingarnar og þá getur ljósanna hátíð breyst í sorg," segir Hjörtur Magni. Hann segir þó ekki meira að gera við að hlúa að þeim sem eigi um sárt að binda um þessi jól en áður. „Það má segja að það sé góðs viti að þetta sé ekki að aukast," segir Hjörtur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×