Innlent

Samið við sálfræðinga um þátttöku TR vegna þjónustu við börn

Í fyrsta sinni hefur nú verið samið við sjálfstætt starfandi sálfræðinga um greiðsluþátttöku TR vegna þjónustu við börn. Samninganefnd heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og sálfræðingar gengu á dögunum frá samningum sem ráðherra og samninganefnd sálfræðinga samþykktu.

Af hálfu heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra er samningurinn liður í þeirri stefnu hans og áherslum sem fram koma í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna að stórefla þjónustu við börn og ungmenni.

Kostnaðurinn vegna samningsins á næsta ári verður um 35 milljónir króna og hefur Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra lagt áherslu á að með samningunum fjölgi valkostunum sem þeir hafa sem þurfa á þjónustunni að halda.

Í samningnum er m.a. gert ráð fyrir að sálfræðingar sem sinna þessari þjónustu hafi víðtæka reynslu af meðferð við börn og ungmenni. Þá er og gert ráð fyrir að barna- og unglingageðdeild Landspítala, BUGL, og Miðstöð heilsuverndar barna vísi á sálfræðingana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×