Innlent

Færist í vöxt að fólk borði úti á aðfangadag

Það færist sífellt í vöxt að Íslendingar borði jólasteikina á veitingastað í stað þess að borða hana heima. Nokkrir veitingastaðir í höfuðborginni verða opnir á morgun.

Jólin eru fyrir marga tími fastra venja og siða þar sem litlu er breytt frá ári til árs. Þó eru sumir sem kjósa að brydda upp á einhverju nýju og þannig hefur það færst í vöxt á undanförnum árum að Íslendingar kjósi að eyða jólunum á sólarströnd erlendis.

Þá hefur það einnig færst í vöxt að Íslendingar fari út að borða á aðfangadag strax eftir messu.

Gígja Magnúsdóttir, vaktstjóri á veitingastaðnum Vox, segir um 100 manns með bókað borð á morgun. Þar á meðal stór hópur Íslendinga. Gígja segir oftar en ekki um eldra fólk að ræða með uppkomin börn sem vilji breyta til á jólunum.

Almennt skemmtanahald er þó bannað yfir helstu hátíðisdagana eða frá klukkan 18 á aðfangadag til klukkan sex að morgni annars í jólum.

Matvöruverslanir loka almennt upp úr hádegi á morgun en svokallaðar klukkubúðir verða þó opnar til klukkan fjögur. Verslanir verða svo lokaðar á jóladag.

Apótek verða víða opin til klukkan fjögur á morgun og á einstökum stöðum til klukkan sex en síðan lokað til jóladags.

Þá verða síðustu strætisvagnaferðirnar á höfuðborgarsvæðinu farnar upp úr klukkan tvö á morgun en ferðir hefjast að nýju samkvæmt áætlun annan í jólum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×