Innlent

Veðurhorfur um jólin alveg þokkalegar

"Það mun blása nokkuð af suðri á morgun aðfangadag, einkum norðvestan og vestan til, með snjó- eða slydduéljum á sunnan og vestanverðu landinu en þurrt norðan og norðaustan til " segir Sigurður Þ. Ragnarsson veðurfræðingur aðspurður um veðrið um jólin.

"Það er lægð að koma upp að landinu vestanverðu í fyrramálið og því færist úrkoman í aukana eftir því sem á daginn líður" segir Sigurður. Hann segir hitann verða eitthvað yfir frostmarki á láglendi sunnan og vestan til annars frost.

"Mér sýnist að það verði engin læti í þessu á morgun og því ættu ferðalög milli landshluta að ganga þokkalega. Þó rétt að nefna að það gæti skafið á heiðum einkum á vestan- og norðanverðu landinu" segir Sigurður.

Á jóladag er að sjá suðlægar áttir sunnan til en austlægari fyrir norðan, sennilega frekar stífar. Slydda eða snjókoma verður víða um land síst þó fyrir norðan. Frostlaust verður með ströndum en þó vægt frost á norðurlandi en þar gæti orðið nokkuð bjart með köflum.

Annan jóladag er svo helst að sjá rólegheitaveður með töluverðu frosti og úrkomulitlu veðri um allt land.

Aðspurður um hvar verði hvít jól og hvar rauð svarar Sigurður: "Mér sýnist að viða verði flekkótt en að til landsins verði víða hvítt enda verður viðloðandi landið úrkomusvæði á morgun. Þetta er hins vegar frekar tæpt við strendur landsins þar sem horfur er á að hitinn verði öðru hvoru megin við núllið, í það minnsta sunnan- og vestanlands" segir Sigurður að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×