Innlent

EFTA rannsakar breytingu alþingis á hafnarlögum

Eftirlitssofnunnar EFTA (ESA) ákvað fyrr í þessum mánuði að hefja formlega rannsókn á nýlegri breytingu Alþingis á hafnarlögum sem heimilar ríkissjóði að bæta að fullu tjón á upptökumannvirkjum.

Fjallað er um málið á heimasíðu Samtaka iðnaðarins. Þar segir að ákvörðun stofnunarinnar er ekki endanleg, en á þessu stigi er það mat hennar að umrædd breyting á hafnalögum og 200 milljón króna fjárveiting í samgönguáætlun brjóti í bága við ákvæði EES-samningsins um ríkisstyrki og sé því ólögmæt.

Róbert Marshall aðstoðarmaður samgönguráðherra segir að menn þar á bæ eigi eftir að kynna sér hvað í þessu felst af hálfu ESA. „Við munum skoða þetta og bregðast við þessu á næstunni," segir Róbert.

Fram kemur í máli Róberts að hann og Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri hafi setið fund með ESA í upphafi mánaðarins. Þar hafi þetta mál ekki borið á góma. Hinsvegar var rætt um áhuga ríkissjóðs á að styrkja Skipalyftuna í Vestmannaeyjum sem hrundi í fyrra. ESA taldi slíkan styrk ekki samræmast reglum eða að minnsta kosti hefði ekki verið sótt um undanþágu vegna hans með réttum formerkjum. „Við erum með þetta mál til skoðunnar hjá okkur og tökum það væntanlega upp aftur á þessum vettvangi," segir Róbert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×