Innlent

Íhugar stöðuna eftir skipun héraðsdómara

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Pétur Dam Leifsson var metinn hæfari en Þorsteinn Davíðsson til að gegna embætti héraðsdómara.
Pétur Dam Leifsson var metinn hæfari en Þorsteinn Davíðsson til að gegna embætti héraðsdómara. Mynd/ Vefur Háskólans á Akureyri

Pétur Dam Leifsson, lektor við lagadeild Háskóla Íslands og félagvísinda- og lagadeild Háskólans á Akureyri, segist vera að ígrunda málin eftir að settur dómsmálaráðherra ákvað að skipa Þorstein Davíðsson í embætti héraðsdómara. Dómnefnd sem fjallar um umsóknir um embættið mat Pétur og tvo aðra umsækjendur hæfari en Þorstein.

„Það er nú svo stutt síðan að tilkynnt var um þetta að ég hef enga ákvörðun tekið en ég er að ígrunda þetta," sagði Pétur í samtali við Vísi. Hann segist hafa tiltölulega skamman tíma til að gera athugasemdir en frestur til að óska eftir rökstuðningi frá dómsmálaráðuneytinu er tvær vikur. „Það er alltaf fyrsta skrefið í stöðunni að óska eftir rökstuðningi og svo verður að meta hann," segir Pétur.

Vísir hefur ekki náð tali af öðrum umsækjendum en Ríkisútvarpið hefur eftir Guðmundi Kristjánssyni hæstaréttarlögmanni að hann íhugi að fara með málið til umboðsmanns Alþingis. Þá ætli hann að óska eftir rökstuðningi ráðuneytisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×