Innlent

Skólameistarinn hættir störfum

Skólameistari Framhaldsskólans á Húsavík hættir störfum innan skamms. Þar með næst fullnaðarlausn í deilunni milli hans og kennara skólans.

Í ályktun frá skólanefnd Framhaldsskólans á Húsavík er greint frá því að samkomulag hafi náðst um það milli menntamálaráðuneytisins, skólanefndar og skólameistara Framhaldsskólans á Húsavík, Guðmundur Birkis Þorkelssonar, að hann hætti störfum í vor. Hann verður í orlofi næsta skólaár og tekur sér eftirlaunarétt að því ári liðnu.

Í ályktun skólanefndar segir: „Skólanefnd Framhaldsskólans á Húsavík harmar þann ágreining sem upp hefur komið í vetur milli stjórnenda og kennara skólans. Skólanefndin hefur rætt við alla aðila málsins og er þess fullviss að fullur vilji er til að leysa þau mál, sem skiptar skoðanir hafa verið um farsællega. Skólanefndin er sannfærð um að það sé best gert innan veggja skólans og hefur gert ráðstafanir til að fá utanaðkomandi fagfólk starfsmönnum og stjórnendum til aðstoðar."

Jafnframt segir að það sé von skólanefndar að öldur lægi og sátt ríki um starfsemi framhaldsskólans næstu misseri en eins og Stöð 2 greindi fyrst fjölmiðla frá skapaðist djúpstæður ágreiningur milli kennara skólans og skólameistara fyrr í vetur þar sem deilt var um stjórnunarhætti skólameistara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×