Innlent

Ellefu brennur í Reykjavík um áramótin

MYND/Heiða

Ellefu áramótabrennur verða í Reykjavík um þessi áramót, þar af sjö sem eru alfarið á ábyrgð Framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar.

Fram kemur á fréttavef framkvæmdasviðs að starfsmenn hverfastöðva framkvæmdasviðs verði við móttöku og uppröðun í bálkesti frá fimmtudeginum 27. desember. Hætt verður að taka á móti efni þegar kestirnir eru orðnir hæfilega stórir eða í síðasta lagi á hádegi á gamlársdag. Kveikt verður í borgarbrennunum sjö klukkan hálfníu á gamlárskvöld.

Fjórar stórar brennur verða í borginni: við Ægisíðu, Geirsnef, í Gufunesi og við Rauðavatn. Þá verða sjö litlar brennur annars staðar, það er við Suðurhlíðar neðan við Fossvogskirkjugarð, við Suðurfell, við Leirubakka við Breiðholtsbraut, við Kléberg á Kjalarnesi, í Skerjafirði gegnt Skildinganesi 44 - 46, vestan Laugarásvegar móts við Valbjarnarvöll og í Ártúnsholti sunnan Ártúnsskóla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×