Innlent

Lithái vill herða reglur um erlenda ríkisborgara - Segist þreytt á svörtum sauðum

Andri Ólafsson skrifar
Sólveig Urboniene
Sólveig Urboniene

Sólveig Urboniene segist vera orðin þreytt á því að lesa um fréttir af afbrotum landa sinna frá Litháen hér á landi. Hún segir að neikvæðar fréttir af Litháum undanfarið geri það að verkum að Litháar verði sífellt meira fyrir fordómum á Íslandi. Hún segir að þessir fordómar birtist til að mynda þegar Litháar sæki um vinnu og þegar þeir séu í húsnæðisleit. Þá segist hún þekkja dæmi þess að Íslendingar forðist það sérstaklega að leigja Litháum íbúðir sínar.

Sólveig segist vilja herða reglur um erlenda ríkisborgara á Íslandi . Hún vill til að mynda að þeim erlendu ríkisborgurum sem brjóti lög verði vísað úr landi. Þannig verði hægt að koma í veg fyrir að fáir svartir sauðir komi slæmu orði á fjöldann.

Sólveig segir að svartir sauðir finnist vissulega í hópi Litháa á Íslandi. Hún nefnir til að mynda að hópur manna taki greiðslur fyrir að útvega Litáhum dvalarleyfi hér á landi. Eiginmaður Sólveigar er einn þeirra sem nýtti sér slíka þjónustu. Hann greiddi litháískum karlmanni 800 dollara fyrir að útvega dvalarleyfi hér á landi.

Þá segir Sólveig að svo virðist mafíustarfsemi í kring um fíkniefnaflutning sem rætur sína eigi að rekja til Rússlansd sé að teygja anga sína til Íslands.

"Langflestir Litháar sem eru á Íslandi eru samt gott fólk sem vill bara betra líf fyrir sig og börnin sín. Þetta fólk á ekki að gjalda fyrir glæpi annara," segir Sólveig Urboniene að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×