Innlent

Björn tekur þátt í hátíðahöldum í Tallin

MYND/Pjetur

Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra tekur í dag þátt í hátíðarhöldum í Tallinn, höfuðborg Eistlands, í tilefni af stækkun Schengen-svæðisins.

Átta ríki í Austur-Evrópu auk Möltu ganga inn í samstarfið og verða Schengen-ríkin því 24 talsins. Með inngöngu ríkjanna í Schengen-samstarfið er staðfest að persónueftirliti sé lokið á innri landamærum ríkjanna níu og í höfnum. Hinn 30. mars 2008 fellur persónueftirlitið niður á flugvöllum. Þessi nýju Schengen-ríki eru Eistland, Lettland, Litháen, Malta, Pólland, Slóvenía, Slóvakía, Tékkland og Ungverjaland.

Norrænir gestir ríkisstjórnar Eistlands fara með ferju frá Helsinki og mun fjöldi ráðamanna Evrópuríkja taka á móti henni. Meðal þeirra eru forseti Eistlands, Toomas Hendrik Ilves, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, José Manuel Barroso, og forsætisráðherra Portúgals, sem nú fer með formennsku í Evrópusambandinu, José Sócrates, en þeir munu auk forsætisráðherra Finnlands flytja ávörp við athöfnina eftir því sem segir í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×