Innlent

Schengen stækkar

Mil hátíðarhöld standa nú yfir á landamærum Þýskalands og Póllands en á miðnætti í nótt bættust níu ríki við Schengen svæðið. Nýju ríkin eru Tékkland, Pólland, Slóvakía, Ungverjaland, Slóvenía og Malta auk eystrasaltslandanna þriggja.

Nú er því hægt að ferðast 4000 kílómetra leið, frá Lissabon í Portúgal til Tallin í Eistlandi án þess að draga upp vegabréfið á leiðinni. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, Donald Tusk forsætisráðherra Póllands og Mirek Topolanek hittast við hátíðlega athöfn á punktinum þar sem landamæri ríkjanna þriggja mætast.

Stækkun Schengen svæðisins hefur í för með sér að nú þurfa þegnar þessara ríkja ekki að sýna vegabréf þegar þeir ferðast til flestra annara landa í Evrópu og íbúar gömlu Schengen ríkjanna geta einnig ferðast óhindrað til nýju landanna.

Til að byrja með mun breytingin aðeins taka til landamæra á láði og legi, en í mars á næsta ári munu flugfarþegar einnig geta ferðast án vegabréfs á milli landanna. Nokkuð hefur borið á gagnrýni á breytinguna en sumir óttast að nú verði glæpaklíkum frá Austur Evrópu gert enn auðveldara að breiða út starfssemi sína á borð við eiturlyfjasmygl og mansal.

Stuðningsmenn segja hins vegar ekkert að óttast, breytingin muni fyrst og fremst auka á samskipti á milli landanna og efla ferðamannaiðnaðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×