Innlent

Stjórnvöld fari yfir árangur af virðisaukaskattslækkun

Formaður Neytendasamtakanna vill að stjórnvöld og hagsmunaaðilar fari yfir árangur af virðisaukaskattslækkuninni síðast liðinn vetur. Hann segir að þannig megi tryggja að boðað afnám vörugjalda skili sér í vasa neytenda.

Ísland er dýrasta land í heimi samkvæmt könnun Alþjóðabankans sem birt var á mánudaginn. Er verðlag á Íslandi 54 prósentum hærra en í Bandaríkjunum og að meðaltali 10 til 30 prósentum hærra en í nágranna ríkjum okkar.

Ríkisstjórnin lækkaði 1. mars síðastliðinn virðisaukaskatt á matvörum í því skyni að lækka matvöruverð hér á landi. Aðgerðirnar skiluðu misgóðum árangri. Þannig hefur komið fram að mörg veitingahús hafi í raun hækkað verð hjá sér eftir að skatturinn var lækkaður.

Viðskiptaráðherra hefur boðað afnám vörugjalda á næstu mánuðum til að vinna gegn háu verðlagi á Íslandi.

Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, vill að gerð verði úttekt á þeim árangri sem náðist með lækkun virðisaukaskatts til að tryggja að afnám vörugjalda skili sér til neytenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×