Innlent

Langflest sveitarfélög með hámarksútsvar

Persónuafsláttur er nú í fyrsta skipti endurskoðaður í takt við breytingar á neysluverðsvísitölu
Persónuafsláttur er nú í fyrsta skipti endurskoðaður í takt við breytingar á neysluverðsvísitölu MYND/E.Ól

64 af 79 sveitarfélögum á landinu verða með hámarksútsvar á næsta ári en aðeins þrjú með lágmarksútsvar samkvæmt tölum sem fjármálaráðuneytið birtir í dag.

Þar kemur fram að sveitarfélögin geti ákveðið útsvar á bilinu 11,24 til 13,03 prósent og nýta aðeins þrjú minni sveitarfélög sér fyrri kostinn. Það eru Skorradalshreppur, Helgafellssveit og Ásahreppur. Tvö sveitarfélög hafa ákveðið að lækka útsvarshlutfallið frá því sem var á þessu ári en fjögur munu hækka það.

Í tilkynningu fjármálaráðuneytisins kemur fram að meðalútsvar sveitarfélaga á næsta ári verði 12,97 prósent sem er það sama og á þessu ári. Tekjuskattshlutfallið, sem rennur til ríkisins, verður 22,75 prósent eins og í ár og staðgreiðsluhlutfall helst því í 35,72 prósentum.

Þær breytingar urðu á lögum í fyrra að persónuafsláttur skuli endurskoðaður árlega og breytast í takt við breytingu á neysluverðsvísitölu yfir tólf mánaða tímabil. Þetta er nú gert í fyrsta sinn frá 1. janúar 2008 en tekið er mið af því að vísitala neysluverðs hækkaði um nærri 5,9 prósent milli desember 2006 og sama mánaðar í ár. Það þýðir að á árinu 2008 verður persónuafsláttur hvers einstaklings 408.409 krónur, eða 34.034 krónur að meðaltali á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×